17.03.2013 15:11

Páskabingó!

Páskabingó í Tunguseli.

 

Páskabingó Hestamannafélagsins Kóps verður haldið í Tunguseli laugardaginn fyrir páska, þann 30.mars n.k. kl.14:00. Margt góðra vinninga.

Hluti ágóðans rennur til Styrktarsamtaka heilsugæslustöðvarinnar á Kirkjubæjarklaustri.

Spjaldið kostar kr.500 og nú munum við bæta ráð okkar og eiga nóg af spjöldum svo enginn þurfi frá að hverfa eins og gerðist því miður í fyrra.

 

Fjáröflunarnefnd Hmf. Kóps.

11.03.2013 08:05

Skýrsla stjórnar árið 2012

Skýrsla stjórnar árið 2012.

 

Fundarstjóri, góðir fundarmenn.
 

Starfsemi félagsins árið 2012 var með nokkuð svipuðu sniði og undanfarin ár. Þó er alltaf, sem betur fer, eitthvað nýtt í félagsstarfinu og ýmislegt gert þegar litið er til baka.
 

Stjórnarfundir voru nokkrir á árinu og einn almennur félagsfundur. Aðalfundurinn var haldinn 2.mars og var mæting þokkaleg. Á fundinum var Jens Eiríkur Helgason bóndi í Hátúnum gerður að heiðursfélaga.
 

Æskulýðsstarfið hófst á árinu með verkefni í samstarfi við skólann. Helgarnámskeið fyrir 6-16 ára var haldið í mars og pizzupartýið var á sínum stað í apríl. Aðrir fastir liðir í æskulýðsstarfinu eru svo reiðskólinn í júní og þátttaka krakkanna í firmakeppni, félagsmóti og hestaferð. Ég ætla ekki að útlista nánar æskulýðsstarfið heldur vísa í Æskulýðsskýrslu Kóps árið 2012 sem þið hafið á borðunum hjá ykkur.Þar má sjá nánari samantekt á því sem gert var með krökkunum.
 

Folaldasýningin var haldin 11. febrúar þegar hálkan var á undanhaldi og fært var orðið með kerrur. Tókst hún í alla staði vel. Við ákváðum síðan á haustdögum að breyta dagsetningu folaldasýningar og hafa hana að hausti eða í byrjun vetrar. Það var því aftur blásið til sýningar á þessu ári, þann 10. nóv. Má segja að það hafi verið í orðsins fyllstu merkingu því svo hvasst var þann dag að fresta varð sýningunni til næsta dags. Þátttaka var góð, 18 folöld og 11 trippi.
 

Félagið stóð fyrir reiðnámskeiði í byrjun árs. Reiðkennari var Páll Bragi Hólmarsson.Þátttakendur voru tíu og eftir því sem ég best veit voru allir ánægðir að því loknu.

Stjórn sat USVS.þing og fulltrúar á L.H. þingi sem haldið var í Reykjavík voru Kristín og Brandur á Fljótum.
 

Félagið réðst í peysukaup á árinu. Tilgangurinn var tvíþættur, annarsvegar að fá flottar peysur á góðu verði fyrir félagsmenn og hinsvegar að græða peninga, því þrjú fyrirtæki keyptu auglýsingar á peysurnar. Fyrirtækin eru Hótel Klaustur, S.S. og Systrakaffi.  Fleira var gert í fjáröflunarskyni, svo sem haldið páskabingó í Tunguseli laugardaginn fyrir páska. Það var gríðarleg aðsókn svo spjöldin seldust upp og ekki voru til stólar fyrir allan þennan fjölda. Urðu því margir frá að hverfa og ætlum við að gera viðeigandi ráðstafanir fyrir næsta bingó.Einnig var blómasala fyrir páska og hvorutveggja skilaði félaginu góðum hagnaði.
 

Farið var í tvo útreiðartúra, sá fyrri var farinn um Landbrotshólana og endað í hesthúskaffi fyrir framan Skaftá. Í þeim síðari var safnast saman í vesturbænum á Herjólfsstöðum þar sem vel var tekið á móti okkur. Herjólfsstaðakonur, þær Steina, Harpa og Adda fóru með okkur í skemmtilegan reiðtúr um Verið í blíðskaparveðri.
 

Firmakeppnin var haldin í apríl og tók fjöldi fyrirtækja þátt. Kópur átti þrjá keppendur á landsmóti sem allir stóðu sig með prýði.  Við tókum einnig þátt í hópreiðinni á setningarhátíð mótsins. Mjög skemmtilegt verkefni, ekki síst undirbúningurinn.
 

Félagsmótið okkar var svo haldið í endaðan júlí. Mjög gott og skemmtilegt mót, fínn hestakostur og frábært veður. Í vikunni fyrir mót bauð Kristín Lár. uppá tilsögn í sýningarprógrammi.Mæltist það vel fyrir og nýttu sér það upprennandi knapar á öllum aldri. Á íþróttahátíð USVS. var svo keppt í hestaíþróttum í fyrsta sinn og vonandi verður framhald á því á komandi árum. Þar sér sambandið um að útvega dómara og ber félagið ekki kostnað af því.
 

Hestaferðin var farin í ágúst. Þetta árið var safnast saman í Álftaverinu. Gist í Herjólfsstaðaskóla, farið ríðandi á laugardeginum út í Skerjakofa. Það þurfti þó enginn að tefja sig á að dáðst að útsýninu, því myrkaþoka var svo varla sá aftasti knapi í þann fremsta. Engu að síður mjög skemmtileg ferð eins og svo oft áður. Til gamans langar mig að geta þess að í upphafi ferðar datt formaðurinn af baki og merkilegt nokk, hún slapp  við allar meinlegar athugasemdir alla ferðina. Sennilega hefur henni orðið það til happs að réttir menn voru ekki á réttum stað á réttum tíma. Á heimleiðinni heyrðist þó nefnt, hvernig stæði á þessari djúpu dæld í vegkantinum á vissum stað á leiðinni.
 

Félaginu var úthlutað reiðvegafé sem unnið var fyrir á árinu og heimasíðan okkar er vel virk, umsjónarmaður hennar er Þórunn Bjarnadóttir frá Fossi.Tveir félagsmenn fóru á námskeið í Kappa og Sport feng. Og núna er nýlokið reiðnámskeiði sem haldið var á Fljótum helgina 26-27.jan. Kennari var Páll Bragi. Það tókst með ágætum, þátttakendur voru tíu, ýmist reynslulitlir eða reynslumiklir en allir ánægðir með námskeiðið.
 

Á þessu ári er félagið okkar 50 ára. Það var stofnað 30.júní 1963. Munum  við væntanlega fagna þeim tímamótum með skemmtilegum og  eftirminnilegum hætti.
 

Af þessari upptalningu má sjá að ýmislegt hefur verið sér til gamans gert hjá félaginu en verkefnin eru ótrúlega mörg í kringum allt sem gert er. En ef allir leggjast á eitt og taka ekki stinnt upp þó þeim berist erindisbréf með tilkynningu um setu í nefnd, þá tekst okkur að efla starfsemi félagsins enn frekar.

Að lokum þakkir til allra velunnara félagsins, bæði fyrirtækja og einstaklinga sem styrktu félagið með ýmisskonar framlögum á árinu. Margt væri óframkvæmanlegt án þeirra stuðnings.

Ágætu félagsmenn og allir þeir sem unnið hafa fyrir félagið á árinu, hafið þökk fyrir ykkar óeigingjarna starf.
 

f.h. stjórnar Hmf. Kóps

Kristín Ásgeirsdóttir

11.03.2013 07:56

Fundargerð Aðalfundar Kóps 15. febrúar 2013 fyrir árið 2012

Aðalfundur  Hestamannafélagsins Kóps haldinn 15.febrúar 2013 fyrir árið 2012

 

 1. Fundur settur , formaður Kristín Ásgeirsdóttir setur fund. Formaður stakk upp á Antoni Kára sem fundarstjóra og Kristínu Lárusdóttur sem  fundarritara. Það samþykkt. Kári bauð alla velkomna. 14 mættir.
   
 2. Skýrsla stjórnar. Anton Kári  les skýrslu stjórnar f.h. Kristínar. Hún samþykkt.
   
 3. Fundaritari Kristín Lárusdóttir les fundagerð síðasta aðalfundar , hún  borin upp til samþykktar. Hún samþykkt.
   
 4. Gjaldkeri Sigurjón Fannar Ragnarsson les upp reikninga og útskýrir þá. Bornir upp til samþykktar. Gjöld 2.255.724,- tekjur 3.146.237,- veltufjármunir alls 2.209.8010,- fastafjármunir 9.005.308,- Eignir alls 11.215.109,-. Reikningar samþykktir.
   
 5. Lagabreytingar  engar lagabreytingar
   
 6. Framtíð mótsvæðis og uppbygging þess. Anton Kári fjallaði um hugmyndir félagsins. Hörður Davíðsson kom með yfirlýsingu varðandi samstarf við hestamannafélagið á fundinn.Yfirlýsingin var eftirfarandi:

 

Yfirlýsing Harðar Davíðssonar Efri Vík vegna leigu á landi til Hestamannafélagsins Kóps á svæði sem félagið hefur haft til afnota undanfarin 40 ár:

Undirritaður óskar eftir og samþykkir að eftirfarandi ákvæði verði í væntanlegum leigusamningi.
Leigutími:
Leigusamningurinn verði til hámarks fjölda ára (reglur um tímalengd) með framlengingu ákvæði á leigu.
Leigukjör:
Leiga á landi kr. 1 ( ein króna) í fimm ár, eða þangað til reiðhöll verður tekin í notkun. Reiðhöll verði fjölnotahús sem Ferðaþjónustan í Efri Vík (Hótel Laki) getur markaðssett sem afþreyingu fyrir gesti í samvinnu við rekstararnefnd hússins. Þessi notkun hússins verður reiknuð sem leiga til landeiganda, þó að hámarki kr. 400.000.- að verðgildi byggingavísit. 15. Mars 2013.
Fundin verður út verðskrá fyrir notkun hússins og þegar leiguupphæð er náð greiðir leigusali fyrir notkun hússins samkv.gjaldskrá.
Ef ekki verður byrjað á reiðhöll-skemmu, innan 5 ára frá 15. Mars n.k. fellur leigu –og lóðasamningurinn úr gildi.

Staðfest 13.mars 2013

Hörður Davíðsson

 

Anton Kári sagði að Sólvellir væru afmarkaðir í gildandi aðalskipulagi Skaftárhrepps og að ekki hafi verið rætt um að færa svæðið eitthvert annað.  Gísli Kjartansson taldi erfitt að byggja reiðhöll á næstu 5 árum.  Anna spurði Hörð hvaða starfsemi hann sæi fyrir sér  í húsinu. Hann sagði það óplægðan akur. Samþykkt að leggja fram eftirfarandi tillögu:

Aðalfundur hestamannafélagsins Kóps haldinn 15. febrúar  2013 samþykkir að stjórn hestamannafélagsins verði  í áframhaldandi viðræðum við Hörð Davíðsson v. samnings um mótsvæðið. Síðan verði haldinn félagsfundur um málið. Samþykkt

 

 1. Kosningar
  1. Kosin stjórn samkv. 5. grein

         Sama stjórn kosin áfram

 1. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og einn til vara

         Gísli Kjartansson og Kjartan  Magnússon. Varamaður Guðbrandur Magnússon

 1. Kosnir fulltrúar á USVS þing

         Stjórn        

 1. Kosið í starfsnefndir félagsins
 • Ferðanefnd

Gunnar Sigurjónsson formaður, Sverrir Gíslason og Kristín Ásgeirsdóttir

 • Mótanefnd

Gunnar Pétur Sigmarsson formaður, Arnhildur Helgadóttir, Rúnar Þorri Guðnason, Guðrún Hvönn Sveinsdóttir og Katla Björg Ómarsdóttir

 • Reiðveganefnd

Gísli Kjartansson formaður, Jón Þ Þorbergsson, Örvar Egill Kolbeinsson

 • Firmanefnd

Fanney Ólöf Lárusdóttir formaður, Pálína Pálsdóttir og Sigurður Kristinsson

 • Fjáröflunar og veitingarnefnd

Sigrún Böðvarsdóttir formaður, Sveinn Hreiðar Jensson og Dagbjört Agnarsdóttir

 • Æskulýðsnefnd

Kristín Ásgeirsdóttir formaður, Þórgunnur María Guðgeirsdóttir og Sigurjón Fannar Ragnarsson

 

 1. Tillögur frá stjórn

 

2 tillögur komu frá  stjórn hestamannafélagsins, voru þær eftirfarandi:

 

Aðalfundur Hmf.Kóps haldinn á Geirlandi 15.2. 2013 samþykkir að félagsgjöld  fyrir 16 ára og yngri og 70 ára og eldri verði kr.2500 og kr. 5000  fyrir 17 ára – 69 ára.

 

Samþykkt

 

Aðalfundur Hmf.Kóps haldinn á Geirlandi 15.2. 2013 samþykkir að stofna Framkvæmdareikning Hmf. Kóps.

Hlutverk reikningsins er að varðveita fé það sem eingöngu er ætlað til uppbyggingar og framkvæmda á mótsvæði félagsins. Inn á reikninginn rynni það fé sem væri aflað til þessa verkefnis svo og frjáls framlög. Aðalfundur hvers árs getur einnig ákveðið að föst upphæð af árgjöldum félagsins það ár greiðist inná reikninginn. Greiðslur af reikningnum verði samkvæmt reglum þar um.

Reglur varðandi Framkvæmdareikning Hmf. Kóps.

Stjórn félagsins hefur umsjón með reikningnum eins og öðrum fjármunum félagsins. Stofna skal sér bankareikning en að öðru leyti skal ekki aðgreina reikningsskil frá reikningum félagsins. Prókúru hafa gjaldkeri og formaður fálagsins. Eingöngu skal greitt af reikningnum til verkefna sem tilheyra framkvæmdum á mótssvæði félagsins samkvæmt gögnum þar um.

 

         Samþykkt

 

 1. Kaffihlé
 2. Nýir félagar samþykktir í félagið

         Rúnar Þorri  Guðnason

         Pálína Pálsdóttir

         Hólmfríður Guðlaugsdóttir

         Dagbjört Agnarsdóttir

         Urður Elín Nökkvadóttir

         Sverrir Gislason

         Sigurður Gísli Sverrisson

         Karitas Heiðbrá Harðardóttir

         Guðbjört Mánadóttir

         Hörður Davíðsson

 

 1. Önnur mál

         Bréf hefur borist frá formanni Hornfirðings, Bryndísi Hólmarsdóttur þar sem Kóp  er boðið að taka þátt á fjórðungsmóti á Austurlandi sem haldið verður á Fornustekkum í Hornafirði 21-23. júní. Vel er tekið í þetta boð.

 

Borist hefur bréf frá Héraðsskjalasafninu í Skógum þar sem það bíðst til að varðveita skjöl fyrir hestamannafélagið. Ef áhugi er fyrir hendi vilja þeir fá skjöl frá því fyrir 2000. Undir bréfið skrifar Einar G. Magnússon.

Samþykkt að taka þessu boði

 

Það vantar tilnefningu frá hestamannafélaginu í framkvæmdarnefnd LM 2014

Vísað til stjórnar

 

Félagið ætlar í fjáröflun. Það er verið  að starta  happdrætti. Búið er að fá 9 folatolla

 

Félagið ætlar að standa fyrir skemmtiferð  á Meistaradeildina, töltkeppnina 14.mars. Ætlum við að koma við hjá Páli og Hugrúnu í Austurkoti og skoða hjá þeim.

 

Páll Hólmarsson kemur og verður með námskeið fyrstu helgina í apríl  ef næg þáttaka fæst

 

Ekki fleira tekið fyrir

 

Anton Kári sleit fundi

 

 

 

06.03.2013 20:52

Breytt dagsetning á firmakeppni Kóps

Firmakeppni Kóps verður haldin 13. apríl ekki 20. apríl eins og áður hefur verið auglýst.

19.02.2013 09:58

Tilkynning til félagsmanna Kóps.

Fjórðungsmót verður haldið á Hornafirði  21.-23. júní n.k.

Hornfirðingar hafa boðið okkur að taka þátt.

Sindramenn verða með úrtöku fyrir mótið samhliða félagsmótinu sínu og hafa góðfúslega leyft okkur að vera með í því.

Nánar auglýst síðar.

 

Stjórnin

18.02.2013 07:37

Menningarferð Kóps

Menningarferð hestamannafélagsins Kóps verður farin 14. Mars.

Lagt verður af stað um hádegi. Nánar auglýst síðar hér á heimasíðunni.

Ætlunin er að fara og sjá Töltkeppni Meistaradeildarinnar sem verður um kvöldið. Einnig verður farið í heimsókn til Páls og Hugrúnar í Austurkoti.

Þeir sem hafa hug á að koma með  eru beðnir að hafa samband við Kristínu Lár í síma 4874725 eða á fljotar@simnet.is ekki seinna en 4.mars.

 

Reiðnámskeið verður með Páli Braga 6 og 7 apríl ef næg þáttaka fæst.

Þeir sem vilja koma á námskeið vinsamlegast skrái sig hjá Kristínu Lár í síma 4874725 eða á fljotar@simnet.is  ekki seinna en 4.mars. Þeir sem komu á námskeið hvattir til að skrá sig og það verður pláss fyrir fleiri.

07.02.2013 09:08

Aðalfundur Hestamannafélagsins Kóps

verður haldinn á Hótel Geirlandi föstudaginn 15. febrúar n.k. kl. 20:30

Venjuleg aðalfundarstörf.

Hvetjum félagsmenn til að fjölmenna á fundinn og nýir félagar velkomnir.

Stjórnin.

15.01.2013 12:48

Reiðnámskeið og fleira hjá hestamannafélaginu Kópi

Reiðnámskeið og fleira  hjá hestamannafélaginu Kópi

 

Fyrirhugað er að halda reiðnámskeið 26 og 27.janúar. Námskeiðið verður haldið að Syðri Fljótum. Reiðkennari verður Páll Bragi Hólmarsson. Verð ca. 15000,-

Nánari upplýsingar og skráning er hjá Kristínu Lárusdóttir í síma 4874725 eða fljotar@simnet.is.

Síðasti skráningardagur er miðvikudagurinn 23.janúar.

 

Reiðnámskeið fyrir börn og unglinga sem eiga hest eða geta útvegað sér hest verður haldið fljótlega. Þeir sem hafa áhuga á því skrái sig hjá Kristínu Lárusdóttir í síma 4874725 eða fljotar@simnet.is.  

Hugmyndin ef þáttaka verður að hittast nokkrum sinnum í vetur. Fyrsti tími td.um  helgi en síðan td. kl. 17 á miðvikudögum 1x eða oftar í mánuði, það fer eftir því hvernig stemmingin verður. Ef vel gengur væri gaman að senda  krakkana með atriði á Selfoss 14.apríl á Hestafjör.

 

Farið verður í hópferð á töltkeppni Meistaradeildar sem haldin er 14.mars ef næg þáttaka verður. Nánar auglýst síðar.

 

Aðalfundur Kóps verður haldinn 15.febrúar. Nánar auglýst síðar

 

Stjórn hestamannafélagsins Kóps

28.12.2012 20:35

Námskeið!

Jæja hestamenn. Hvers konar námskeiði hafið þið áhuga á?

Við í stjórninni myndum vilja bjóða upp á tvískipt námskeið. Fyrri hluta í janúar og seinni hluta í febrúar eða mars. (Heimaverkefni á milli).

Hvað segið þið um frumtamningarnámskeið?

Endilega komið með fleiri hugmyndir á netfangið sigmarhelga@simnet.is sem allra fyrst.

 

Kv. Stjórnin

22.12.2012 14:00

Jólakveðja.

 

Kópsfélagar og Skaftfellingar nær og fjær.

 

Bestu óskir um gleðileg jól og farsælt nýtt ár.

Þakka öllum þeim sem unnu fyrir félagið eða styrktu það með einum eða öðrum hætti, á árinu sem er að líða.

Megi nýja árið færa ykkur glæsta sigra á öllum sviðum hestamennskunnar.

 

F.h. Hestamannafélagsins Kóps

Kristín Ásgeirsdóttir

25.11.2012 20:04

Buff til sölu.

Buff til sölu.

 

Eigum ennþá til sölu buffin með áprentuðu félagsmerkinu.

Nauðsynlegt undir hjálminn núna þegar fer að kólna,

sniðugt að stinga með  í jólapakkann og mjög ódýr, aðeins kr. 1500.

 

Kv. stjórn Kóps.

 

 

12.11.2012 16:32

Knapamerkja- og prófdómaranámskeið

 

Knapamerkja- og prófdómaranámskeið.
 
Sunnudaginn 18. nóvember verður boðið upp á fræðsludag og námskeið um
Knapamerkin auk þess sem prófdómurum verður boðið upp á að uppfæra
dómararéttindi sín og nýjum að spreyta sig á að taka próf. Fyrri hluti námskeiðsins verður
öllum opinn sem áhuga hafa á að fræðast um Knapamerkin eða ætla sér að bjóða upp á
Knapamerkjanámskeið í vetur. Seinni hluti námskeiðsins er einungis hugsaður fyrir þá
aðila (reiðkennara) sem hyggjast taka prófdómarapróf.
 
Ath. Þeir sem eru með prófdómararéttindi verða mæta á þetta námskeið og taka
prófdómaraprófið til að viðhalda núverandi réttindum.
 
Skráningu í prófdómarahluta námskeiðsins lýkur föstudagskvöldið 9 nóvember.
 
Staðsetning – Fáksheimilið og Reiðhöllin í Víðidal
 
Dagsetning - 18 nóvember frá klukkan 10:30 til 18
 
Verð
Það er frítt á fyrri hluta námskeiðsins en verð fyrir þá sem mæta á prófdómaranámskeið
er 20.000 krónur og innifalið í því er kaffi og snarl yfir daginn auk próftökugjalds.
 
Dagskrá
Klukkan: 10:30 – 10:45 Kynning Helga Thoroddsen
Klukkan: 10:45 – 11:15
Erindi: Arndís Brynjólfsdóttir, reiðkennari.
Reynslan af Knapamerkjunum í Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra.
Kaffihlé
Klukkan: 11:30 – 12:00
Erindi: Rósa Kristinsdóttir og Oddný Erlendsdóttir.
Fjalla um reynsluna af því að vera nemandi í Knapamerkjum. Báðar hafa lokið
prófi á 5. Stigi Knapamerkjanna.
Klukkan: 12:00 – 12: 15 Fyrirspurnir og umræður
 
Þessi fyrri hluti námskeiðsins er öllum opinn sem áhuga hafa á að kynna sér
Knapamerkin og leita upplýsinga um þau.
 
Matarhlé
Klukkan 13:00 – 13:30
Farið yfir helstu verkefni Knapamerkjanna þessa dagana og hvað er framundan.
Umræður
Klukkan 13: 40 - 15:30
Farið yfir helstu áhersluatriði í prófum og æfð prófdæming af myndböndum.
Kaffihlé
Klukkan 16:00 – 18:00
Prófdómarapróf
 
Þessi hluti námskeiðsins er opinn reiðkennurum sem hyggjast kenna
Knapamerkjanámskeið og prófdómurum sem vilja uppfæra prófdómararéttindi sín.
Dæmd verða 2 próf á hverju stigi Knapamerkjanna og prófgögnum skilað til prófdómara.

12.11.2012 16:31

Til félagsmanna í Hmf. Kóp, 18 ára og eldri.

 

Til félagsmanna í Hmf. Kóp, 18 ára og eldri.
 
Laugardagskvöldið 24. nóv.n.k. býður Hmf. Sindri félagsmönnum í Kóp 18 ára og eldri að koma út yfir
sand og taka þátt í skemmtun með þeim.Aðgangseyrir er kr. 5000.00 og þátttökutilkynningar þurfa að
berast í síðasta lagi 18.nóv.
 
Allar aðrar nánari upplýsingar þurfið þið að nálgast í síma 8693486 hjá Kristínu Ásgeirsdóttir sem
einnig tekur við þátttökutilkynningunum. Við skorum á ykkur að hafa samband.
 
Með kveðju
 
Stjórn Kóps.

11.11.2012 19:53

Úrslit folalda- og trippasýningar Kóps 11. nóvember 2012

Sunnudaginn 11. nóvember var haldin folalda- og trippasýning að Syðri Fljótum.                                                                                                      

Dómari var Pétur Halldórsson og aðstoðarmaður Árni Gunnarsson.

Á eftir var kaffi og kökur.

Hér er komið nýtt myndaalbúm

 
 

 

 

 

Tenglar

Flettingar í dag: 412
Gestir í dag: 154
Flettingar í gær: 920
Gestir í gær: 108
Samtals flettingar: 371266
Samtals gestir: 66928
Tölur uppfærðar: 8.8.2020 13:58:44